Laxveiði í Blöndu og yfirfall

Eins og menn vita þá fór Blanda á yfirfall snemma í ár eða þann 4. ágúst. Lengi fram eftir vetri leit alls ekki út fyrir svo snemmbúið yfirfall þar sem vatnsstaða lónsins var með minnsta móti. En svo brast á rigningarsumarið mikla og því fór sem fór. Landsvirkjun kættist en veiðimenn síður.

Enda fór það svo að veiði í Blöndu var með minnsta móti og þar munar um að taka nánast tvo mánuði af veiðitímanum.

Yfirfall á veiðitíma hefur ekki verið sérlega algengt síðustu ár og því má segja að sumarið í ár sé undantekningin sem sannar regluna.

Landsvirkjun tekur saman tölur um yfirfall frá 2012 og þar má sjá að öll önnur ár en 2018 hefur áin ekki farið á yfirfall fyrr en í fyrsta lagi í september og stundum hefur ekkert yfirfall verið. Samkvæmt þessu eru minni líkur en meiri á að yfirfall stríði okkur næsta sumar en þó er aldrei hægt að lofa neinu í þessum efnum.

Góðu fréttirnar við þetta blessaða yfirfall eru þær að laxinn fékk miklu meiri frið í ánni sem ætti að stuðla að betri stórlaxagöngu næsta sumar og jafnvel betri hrygningu.

Eitt er víst að undirritaður verður á bakkanum í júní til að heilsa upp á þann stóra, það er bara hreint dásamlegt að veiða Blöndu í sumarbyrjun.

Við erum búinn að setja leyfi í Blöndu inn í vefsöluna, má þar nefna flotta júnídaga á svæði eitt og svo voru að losna frábærir dagar á svæði tvö í júlí.

Endilega rennið yfir framboðið hér: Vefsala Lax-Á 

Svo er bara að fara að hlakka til næsta sumars!

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is