Inndjúpið er mín laxveiðiparadís

Ég á mér nokkur uppáhaldssvæði í veiði líkt og margir en hátt á listanum er að stunda veiðar í ánum við Ísafjarðardjúp. Í sérstöku uppáhaldi eru ferðir þangað í byrjun tímabils, þegar lífið er að vakna og bjart er allan sólarhringinn.

Það er bara fátt sem toppar að standa við ána sína seint að kveldi í sumarbyrjun og horfa á sólina lýsa upp Snæfjallaströndina og Inndjúpið.

Að vísu getur veiðin verið erfið þessa júnídaga, en aldrei hef ég samt farið fisklaus heim, og þeir eru stórir. Þessir stóru, kraftmiklu koma fyrst og einn bjartur stórlax er í mínum huga á við marga, marga smærri fiska.

Síðustu sumur hef ég haft þann háttinn á að byrja tímabilið í Hvannadalsá sem er ein af ánum mínum við Djúp. Hvannadalsá í upphafi veiðitíma er hreint ekki sama áin og síðar um sumarið. Á veturna safnast upp snjóalög á heiðinni sem veita ánni álitlegan vatnsforða þegar sólin bræðir hjarnið á vorin. Hún er því oft mikil um sig í júníbyrjun og þykist vera stórfljót.

Helstu staðirnir þarna í sumarbyrjun taka mið af því en langflestir eru fiskarnir veiddir í Árdalsfossi. Þeir virðast strauja þangað og leggja ekki í strauminn lengra upp á. Oft var talið að þeir kæmust ekki upp fossinn en ég er ekki viss um að sú sé raunin. Á vorin myndast læna norðanmegin þar sem vanalega er þurrt, þar held ég að geti verið lag fyrir kratmikinn vorfiskinn að skjótast upp.  Enda hefur komið í ljós að fiskar hafa veiðst snemmsumars í Imbufossi sem er spölkorn ofar í ánni.

Það var um jónsmessuleytið sem ég fór í fyrsta túrinn minn í ána. Þetta var fyrsti túr ársins og spennan var í hámarki. Ég verð yfirspenntur svona í fyrsta túr, ég verð utan við mig og gleymi stund og stað, veiðieðlið tekur algerlega yfir. Ég myndi ekki taka eftir því þótt bleikur fíll elti mig á bakkanum, það eina sem ég veiti eftirtekt er áin!

Mesta spennan er yfirleitt fólgin í því að rýna í dýpið á hefðbundna staði.  Er hann mættur? Viti menn, þegar ég rýndi á breiðuna þar sem fryssið fjaraði út þá lágu þar fjórir drellar, sá minnsti giskaði ég á að væri 10 pund.

Skjálfandi klöngraðist ég niður brekkuna til að komast í kastfæri. Það var loksins komið að fyrsta kastinu, sumarið var að byrja. Í fyrsta rennsli, bang hann var á. En nú byrjuðu vandræðin. Nær ómögulegt var að finna stað til að landa fiskinum í öllu þessu vatni. Ég þurfti skjálfandi á beinunum að klífa hlíðina og fikra mig eftir klettaveggnum nokkra tugi metra niður í gljúframynnið. Þar klöngraðist ég niður og þreytti fiskinn. Oft munaði litlu að ég missti hann niður háðvaðan rétt fyrir neðan mig en ég tók eins fast á honum og var þorandi.

Loks var hann tekinn að lýjast og ég gat landað honum í dálitla vík í straumnum, glæsileg 10 punda hrygna. Í fátinu missti ég nýja rándýra símann minn í ána. En það var allt í lagi, sumarið var byrjað!

Hér fyrir neðan má sjá munin á Imbufossi eftir mánuðum. Fyrri myndin er tekin í lok júní, sú síðari í lok ágúst.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is

imbufoss_vor Imbufoss - haust