Silungasvæði Tungufljóts hefur verið á uppleið síðustu ár og þeir sem hafa lagt sig fram hafa gert oft á tíðum góða veiði. Svæðið er afar víðfemt og nær frá ármótum Einholtslæks og Tungufljóts og í raun eins langt upp með fljótinu og menn kæra sig um að fara. Vel rúmt er um þær 8 stangir sem er leyft að veiða á.
Auk Tungufljótsins samanstendur veiðisvæðið af hliðaránum: Beiná, Laugá og Almenningsá. Svæðið er því skemmtilega fjölbreytt og geymir ólíka veiðistaði. Í Tungufljótinu sjálfu eru straumharðir djúpir dammar þar sem þeir stóru halda sig oft, þar er straumfluga besta agnið. Vilji menn svo reyna sig við andstreymisveiði eða jafnvel þurrflugu eru hliðarárnar tilvaldar til þess, með litlum lygnum og tifandi strengjum. Oft er góð veiði í ármótum, þar sem Beiná og Laugá falla í Almenningsá og svo þar sem sú síðastnefnda fellur í Tungufljót.
Eins og áður sagði er svæðið gríðarstórt og tæki það drjúgan tíma að veiða það allt. Sem dæmi um dagsferð væri til dæmis hægt að keyra upp að efstu brú yfir fljótið og veiða sig þar niður að Einholtslæk en til þess þarf hraða yfirferð. Annar dagur gæti svo farið í að einbeita sér eingöngu að hliðaránum.
Á silungasvæðinu má nota bæði flugu og spún og er þetta skemmtilegt og fjölskylduvænt svæði sem vert er að kynna sér nánar. Auk urriðans veiðist bleikja og auk þess gengur svolítið af laxi á svæðið.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is