Stórlaxinn er í Kola ánni

Til fjölda ára höfum við hjá Lax-Á boðið upp á veiðiferðir til Rússlands, nánar tiltekið á Kolaskaga en þar um slóðir má finna margar glæsilegar laxveiðiár. Einna þekktust er áin Kola sem allur skaginn dregur nafn sitt af.

Kola er þekkt fyrir ógnarstóra fiska og þar veiðast fiskar yfir 40 pund ár hvert. Tuttugu pundarar – plús eru algengir og fjöldi laxa veiðast yfir 30 pundum. Líkt og hér heima koma þessir stærstu fyrst og júní er sannkallaðaður stórlaxamánuður. Við ætlum að fara þá. Árni Baldusson veiddi sinn stærsta lax einmitt í júníbyrjun í Kola og má sjá mynd af ferlíkinu hér að ofan, 45 pund takk fyrir takk!

Áin sjálf er engin spræna og geymir enga titti, að sjálfsögðu þurfa veiðitæki að taka mið af því. Mælt er með tvíhendu 13-15 fet fyrir línu 8-10. Hjólið þarf að vera með öflugri bremsu og nýrri baklínu ekki undir 30 pundum af styrk. Í júní er best að nota sökklínur eða línur með skiptanlegum sökkhaus eins og t.d Skagit Versitip. Taumar ættu ekki að vera undir 30 pundum. Í byrjun tímabils virka stórar túbur einna best: Sunray Shadow, Collie dog, Willie Gun, Rauð og svört Frances (cone), Temple dog, Green Highlander, Blue Charm, Red But, The Cascade, Mickey Finn.

Við bjóðum upp á ferðir til Kola á sannkölluðum stórlaxatíma 2015 – 06/06-13/06,  13/06-20/06, 20/06 -27/06.Ágætis aðbúnaður er við ána að og stjanað er við veiðimenn í búðunum. Boðið er upp á búðir með aðalhúsi með fallegu útsýni yfir ána, þar snæða menn og ræða veiði dagsins. Gistiaðstaðan samanstendur af smáhýsum, hvert og eitt með sér baði.  Einungis klukkutíma akstur er frá Murmansk til búðanna, ekki er þörf á að fara með þyrlu.

Skelltu þér í alvöru stórlaxavon til Rússlands, ferðin verður algert ævintýri og verðið kemur á óvart.

Allar nánari upplýsingar gefur Jóhann Davíð – jds@lax-a.is