Höfðinginn í Hvannadalsá

Við heyrðum af veiðimönnum sem fóru í Hvannadalsá fyrir skemmstu. Í fyrsta kasti settu þeir í lax og lönduðu honum og hugsuðu sér gott til glóðarinnar. En eins og stundum vill verða í veiðitúrum þá var þetta eini laxinn sem þeir fengu í túrnum!

Þeir sáu þó risastóran dreka liggja í Imbufljóti og treystu sér til að áætla að hann væri vel yfir 20 pundin. Þessi höfðingi leit ekki við neinu og hreyfði sig ekki af sínum stað.

Víkur nú sögunni að öðrum mönnum sem voru í ánni skömmu síðar. Þar voru á ferð þaulvanir Hvannadalsármenn – Baldur Jónsson og félagar.  Þeir fengu þrjá fiska í túrnum, einn 75cm og tvo 53cm. En þeir settu líka í annan fisk í Imbufossi,svakalegan dreka. Fiskurinn tók roku niður alla ána og slapp loks eftir  hálftíma viðureign.

Þar er líklega kominn höfðinginn úr frásögn fyrri veiðimanna. Ja, nema að þeir séu fleiri í yfirstærð undir fryssinu í Imbufossi. Eitt er víst. Enn er risalax í ánni sem sleikir sárin og bíður næstu veiðimanna..

Veiðikveðja,

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is