Grein eftir Jóhann Davíð Snorrason, áður birt í Sportveiðiblaðinu 2.tbl. 33. árg.
Ég hef verið helsýktur af veiðibakteríunni frá því ég man eftir mér. Byrjaði í silungnum sem polli en eftir því sem árin liðu fór ég að gjóa augunum í æ meira mæli að laxveiðinni. Ég vildi meira, eitthvað stærra, eitthvað kraftmeira. Laxinn var málið.
Ég, líkt og flestir, hef síðan alltaf verið á höttunum eftir þessum stóra, mig hefur dreymt um að ná laxi yfir 20 pundin. Þrátt fyrir ríka ástundun til tuga ára var metið mitt hérna heima 92 cm fiskur sem ég veiddi í Bugðu í Kjós.
Vissulega eru tækifæri til þess að veiða stóran lax hérna heima en þeir eru því miður sjaldgæfir í seinni tíð. En í stóru landi í austri eru ár sem ég hafði heyrt um að væri afar góður möguleiki á því að setja í risalax. Ég hafði séð myndir af sannkölluðum drekum yfir 40 pund og mörgum yfir 30 pundin. Þegar mér bauðst svo tækifæri til að fara í Kola ána rétt við borgina Murmansk greip ég það fegins hendi.
Ferðalagið sjálft var viðburðalaust og þægilegt, á flugvellinum tók gædinn minn á móti mér og keyrði mig í búðirnar. Búðirnar voru ósköp venjulegar, enginn lúxus en þægilegt rúm og snyrtilegt hús sem við gistum í 6 manns í tveggja manna herbergjum. Maturinn var ekki að sama skapi góður, yfirleitt ætur en ekki mikið meira en það. Mér var sama, ég var kominn til að veiða stórlax ekki til að bæta á mig spiki.
Fyrirkomulag veiðanna er þannig að mætt er í hús úr flugi á laugardegi, veiðin hefst á sunnudagsmorgni og veitt er út allan föstudaginn, síðan er farið heim næsta laugardag. Ræs er klukkan sjö á morgnana, étinn morgunverður og svo eru menn keyrðir til móts við gædinn. Veiði er yfirleitt hafin rétt fyrir átta og stendur til hálf sex – sex með stuttu hádegishléi við bakkann.
Svæðum er róterað á milli daga þannig að menn veiða ekki sama svæðið tvo daga í röð. Menn geta valið um hvort þeir eru með öðrum veiðimanni á bát með einum gæd eða hvort þeir vilja vera einsamlir og greiða þeir meira fyrir það.
Ég svaf varla nóttina fyrir fyrsta veiðidaginn, ég var svo spenntur að það ískraði í mér. Eftir að hafa slafrað í mig hafragraut og drukkið neskaffi var ég ásamt bátsfélaga mínum keyrður á miðsvæðið í ánni, svokallaða göngubrú. Þar hittum við gædinn okkar sem reyndist okkur afskaplega vel og þekkti ána eins og lófann á sér. Og talandi um á. Kola áin er Á með stóru Ái, stór og djúp með fullkomnum flugubreiðum og öskrandi flúðum þess á milli.
Ég var búinn að græja mig upp á allan þann hátt sem ég hélt að myndi duga í svona stórfljót með stóra íbúa. Girnið var hnausþykkt 35 punda Seaguar og ég var vel vopnaður öllum flugum sem mér var sagt að myndu virka þar eystra. Sökktaumar voru með í för af öllum sökkhraða en þó mest í allra hraðasta sökkflokki. Ég hélt að þetta þyrfti að veiða hægt og djúpt.
Gædinn kom mér á óvart og vildi ekki sjá togvírinn og sagði mér að pakka þessu aftur, hann sagði að 20 punda girni væri feikinóg. Hann vildi heldur ekki að ég notaði nema miðlungshraða sökkenda. Aðstæður voru bara þannig þessa viku, hitabylgja og áin heit þannig að annað plan þurfti til að fá laxinn til að taka. Betra er að koma vel búinn undir allt og gefa sér ekki fyrirfram að ein taktík dugi í Rússlandi umfram aðrar.
Vel útbúinn byrjaði ég að kasta á fyrsta staðinn, það kom í minn hlut að byrja frá landi en bátsfélagi minn var áfram um borð. Þennan fyrsta dag var vel heitt í veðri, sól skein í heiði og ekki vindgára. Ekki besta veiðiveðrið en þrælgott til útivistar. Ég kastaði og kastaði en ekki högg, þó var nóg af fiski og það lá við að hann ullaði á mig þegar hann stökk út um allt. Sumir voru svo stórir að skvampið við lendingu var eins og akfeitur selur hefði lyft sér úr vatninu svo ég ýki svona rétt aðeins.
Félagi minn í bátnum setti í tvo fiska sem láku af fljótt en ég núllaði frá landi. En þá var bara að reyna næsta stað!
Svoltilu neðar í ánni er glæsilegur staður þar sem hún þrengist aðeins og myndar gullfallegan veiðistað þar sem fiskar stoppa. Þar var komið að mér að vera í bátnum. Nokkur köst og ekkert, ekki högg og áfram héldu fiskarnir að stökkva allt í kringum mig. Ég skipti um flugu og setti undir „Frances Creme Brulee“, gædinn hló að þessu skrípi. Eitt kast og flugan var negld, gædinn snarhætti að hlæja og myndaðist við að koma mér í land.
Ég fann strax að hann var stór, en þeir eru allir stórir í júni í Kola. Spurningin var bara hvort þetta væri nýi metfiskurinn minn. Ég var svo stressaður að ég gerði fáránleg byrjendamistök og var nokkuð glaður að það sá enginn þær aðfarir, það söng í hjólinu og gædinn kallaði á mig skipanir en ég náði að gera allt öfugt við það sem ég átti að gera. Að lokum tókst mér þó að landa og reyndist hann 92 cm, áætlaður 17 pund. Ekki alveg met, en nálægt því og ég var eitt bros – fyrsti Rússalaxinn minn á fyrsta degi. Þess má geta að aðeins önnur viðmið gilda um lengd og þyngd í Rússlandi en á Íslandi og er fiskurinn töluvert sverari í rússnesku ánum og því þyngri samkvæmt kvarðanum.
Ekkert fleira markvert gerðist í minningunni þennan dag, sólin skein sem aldrei fyrr og hitinn skreið upp í 24 gráður – það var skollin á hitabylgja norðan við heimskautsbaug.
Að kveldi dags hvíldu menn lúin bein, skruppu í gufuna og sumir hverjir gældu við vodkaflösku sem var seld beint úr frystinum. Menn spjölluðu um veiði dagsinns, töluðu um fluguval, taktík og veiðistaði. Það var góð stemmning í kampinum.
Næsta morgun var ræs kl. 7, morgunmatur og svo voru menn keyrðir á veiðistað. Þennan dag áttí ég að byrja í hinum fræga stað „Junction“ en það eru ármót Kola við Kitsa ána. Gædinn minn sá að enginn var við veiðar í hinum fræga „Aquarioum pool“ og því var róið með okkur þangað.
Junction er stór og djúpur dammur rétt fyrir ofan miklar flúðir í ánni. Á þessum stað hafa veiðst margir af stærstu löxunum úr ánni.
Ég hóf leik í bátnum og þandi köstin, fyrst stutt og svo lengra í áttina að blábrotinu. Þar kom negling á Rauða Frances túbu, þung og hæg taka eins og þessir stóru eiga að sér. Með allt í keng var róið í land. Nú var lag að taka nokkuð ákveðið á fisknum svo hann færi ekki niður flúðina en samt gefa honum rými til að taka roku. Gædinn ráðlagði mér að reyna alls ekki að stoppa hann of fast ef hann tæki roku, heldur leyfa honum að fara eins langt og ég þyrði í áttina að flúðunum. Þessir stóru drekar vilja helst ekki fara niður flúðirnar aftur og sé þeim veitt minni mótspyrna þá sækja þeir frekar í legustaðinn sinn aftur.
Það tók mig um hálftíma að þreyta fiskinn og landa honum, allan tímann var ég þessi fullviss um að þetta væri sá stærsti. Honum var landað og þetta var flykki, rígvænn hængur sem mældist 95cm og 19 pund. Þetta var vissulega met en ég vildi meira, ég vildi í tuttugu punda klúbbinn.
Um kvöldið göntuðust menn með að ég væri búinn að taka einn 17 punda og svo einn 19 punda, ég hlyti því að fá einn 21 punda næst!
Dagur þrjú og enn skein sól í heiði. Íbúar Murmansk sóluðu sig á árbakkanum og einn og einn synti í ánni. Vatnshiti 16°c, lofthiti 26°c.
Þennan dag átti ég neðri partinn í ánni og átti að enda veiðina í hinum fræga stað Monika pool. Það var steikjandi hiti og fátt markvert gerðist fyrri part dags þar sem við dóluðum okkur niður ána. Fiskurinn sýndi sig og það voru alveg svakalegir boltar sem ulluðu á okkur en takan var engin.
Síðla dags komum við að Monika pool sem er geysifallegur gríðarstór veiðistaður og rúmar vel allt að sex stangir. Þegar við komum að voru öll svæði upptekin nema einn, blábrotið fyrir ofan flúðirnar. Sá staður er vandveiddur og ekki allir gædar kunna að þá list að róa nógu langt til að hægt sé að kasta á brotið en róa þó ekki of langt. Rói menn of langt þá nær straumurinn bátnum og þá er voðinn vís.
En ég var með góðan gæd…
Ég kastaði nokkur köst en átti erfitt með að láta fluguna skauta beint við brúnina á brotinu. Laxarnir lágu svo neðarlega að sporðurinn var rétt við mörkin þar sem öskandi flúðirnar tóku við hægrennandi vatninu. Hér hvíldu þeir sig eftir að hafa barist við flúðirnar. Hér hafa margir af þeim stærstu í ánni veiðst.
Nokkur köst enn og ekkert gekk, erfitt var að sitja á bát og ná réttri lengd af kasti og ná hárréttu rennsli á fluguna þannig að hún bærist rétt fyrir framan nefið á þeim.
En halló, þarna tókst það og um leið og fór að réttast úr línunni vissi ég það. Bang, eins og þétt handtak frekar en titringur og svo var lagst. Þarna var hann! Þetta er hann! Er það ekki?
Gædinn réri öllum árum að því að koma mér í land svo ég gæti komið mér í bardagastöðu, fiskurinn fylgdi á eftir nema þegar ég tók of fast á honum, þá trylltist hann svo að söng í hjólinu. Í landi var ég í góðan tíma að þreyta fiskinn, hann tók alltaf svakalegar rokur inn á milli en stökk aldrei. Þegar hann nálgaðist land þá sá ég að þetta væri met. Þvílikur fiskur, 98 cm og 11 kg. Nú rættist spá veiðimannanna í húsinu og ég var alsáttur.
Kola er á drauma minna og ég fer aftur, og aftur og aftur. Ég held ég eigi góðan séns á að bæta metið mitt enn frekar, stærsti laxinn úr ánni er skáður vel yfir 40 pund og ár hvert veiðast margir yfir 30 pundin.
Ég verð með hópferð til Kola á besta tíma í stórlaxinn í sumar. Enn eru nokkur pláss laus í ferðina sem verður frá 18-25 júní. Verðið kemur skemmtilega á óvart miðað við vikuferð með öllu inniföldu í Rússlandi.
Jóhann Davíð gefur allar nánari upplýsingar í jds@lax-a.is beinn sími: 5316101
Möguleiki er að panta kynningu á veiðunum fyrir vinahópa eða vinnustaði.