Þó svo að hér heima blási hrollkaldir vindar og engum heilvita manni dytti í hug að stunda stangveiðar þá eru laxveiðar hafnar á Bretlandseyjum.
Írland opnaði sínar ár í janúar en ekki hafa aflabrögð verið neitt til að hrópa húrra fyrir, enda er besti tíminn nær vori. Þann fyrsta febrúar opnaði svo hin fræga á Dee í Skotlandi. Ekki er hægt að tala um mok á þeim slóðum en þó hafa tosast upp nýgengnir laxar við erfiðar aðstæður.
Það yljar um hjartarætur að sjá nýgenginn lax í febrúar og við birtum með mynd af 10 punda fiski frá „Upper Blackhall“.
Enn hefur enginn komið á land á okkar svæðum „lower Crathes“ en við bíðum róleg. Betri tími þar um slóðir er á vormánuðum. Ef þig langar til að prófa veiðar í Skotlandi til að stytta biðana eftir veiðina heima þá getum við útvegað stangir á mjög góðu verði.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð –jds@lax-a.is