Það stefnir í vægast sagt spennandi sumar. Bæði Blanda og Norðurá opnuðu með þvílíkum krafti að eldri met voru slegin í tætlur. Elstu menn muna vart eða hreint ekki aðra eins laxagengd í Blöndu svona snemma tímabils, svæði eitt var blátt af laxi og í gegnum teljara á efri svæði hafa gengið yfir 210 fiskar. Á sama tíma í fyrra var talan nálægt 20 kvikindum sem höfðu skriðið upp. Enn eru lausir góðir ódýrir dagar á efri svæðum í vefsölunni okkar.
En það er lax víðar en í ánum sem þegar hafa opnað fyrir almenna veiði. Við höfum haft fregnir af því að fyrsti laxinn hafi verið dreginn á land í báðum Rangánum og þykir það afskaplega snemmt. Á meðfylgjandi mynd má sjá Jóhannes Hinriksson með 94 cm hæng úr klakveiði í Ytri Rangá. Glæsilegur fiskur!
Af öðrum svæðum er það að frétta að lax hefur sést stökkva í Soginu og tíðindamaður okkar að norðan sem gerði sér ferð í Hallá sá þar einn hrikalegan lax og tvo smærri. Hallá ætlar að vera fljót til þetta árið.
Þetta verður spennandi sumar, til hamingju með startið kæru veiðimenn.
Raðið í ykkur gotteríi úr vefsölunni : Vefsala Lax-Á
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is