Indæla Ytri Rangá

Í sumar sem leið leiddist fáum í Ytri Rangá. Ef einhverjum leiddist þar þá er sá hinn sami mjög líklega núna kominn í golfið í stað veiði.

Áin var hreinlega pökkuð af laxi og það var næstum sama í hvaða hyl litið var í, allstaðar var lax.

Ég hrökk á hálfan dag í ánni um mitt sumar og það var logandi stuð. En samt byrjaði þetta ekkert sérstaklega vel.

Ég átti Hellisey og Tjarnarbreiðu fyrstu þrjá tímana og skemmst er frá því að segja að ég núllaði, fékk ekki töku- hvað þá meir. Laxinn vantaði ekki á staðina en hann sýndi agninu núll % áhuga. Mennirnir á hinni stönginni voru þó örlítið veiðnari og hirtu einn af svæðinu.

Næst átti ég Rangárflúðir svo ekkert tilefni var til að örvænta enn.  Flúðirnar voru algerlega pakkaðar af fiski , hann var út um allt, í öllum pyttum og pottum og stökkvandi hægi vinstri með tunguna út úr sér.

Ég setti Cascade túbu á og öslaði í færi við lónbúann. Ég man ekki hvort það var fyrsta eða annað kast sem hún var negld og litlu seinna lá falleg fimm punda hrygna á bakkanum. En meðan ég þreytti hana sá ég hvar stærri djöflar stukku lítið eitt neðar. Pant fá einn svoleiðis. Ég fleytti flugunni neðar á brotið og þar tók einn af þessum höfðingjum, hægt og fast en hékk ekki lengi í sambandi. Aftur var reynt og enn öskraði hjólið, nú var hann fastur. Mér brá satt að segja, hélt ekki að þessi á geymdi fiska í þessum flokki.

Eins og oft vill verða hélt ég að hann væri stærri, nema nú gat ég ekki logið þar sem ég landaði honum. Hann var samt æðislegur, 15 punda rumur, haustór, feitur og floooottur. Okkur félagana má sjá á meðfylgjandi mynd, ég er þessi með algleymisglottið.  

Það var á oftar eftir þetta og djö.. var þetta gaman. Má ég koma aftur plís.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is