Blanda opnaði kl 7:00 í gær og gengu veiðar vel fyrsta daginn. Reynir M Sigmunds landaði fyrsta laxinum kl:7:15 og var það vel haldinn og glæsilegur Blönduhöfðingi. Reynir hefur líklega sofið yfir sig og því ekki tekið laxinn fyrr 🙂
Á fyrstu vaktinni komu svo 9 til viðbótar á land eða 10 í heildina. Seinniparts vaktin var ekki að gefa alveg jafn vel en miðað við aðstæður voru menn sáttir við að klára hana með fimm fiska. Það gerði hávaðarok og var orðið kallt ofan í það, nóg af fiski en tók fyrir töku.
Í heildina komu því 15 laxar á land á fyrsta degi sem verður að teljast hreint prýðilegt og er meira í átt við hvað hún er að gefa í venjulegu ári. Allir eru laxarnir vel haldnir og sumir voru með halalús, skipting á milli veiðstaða er afar jöfn og engin einn sem skarar fram úr.
Nú er spurning hvort spádómur síðuritara um 27 laxa opnun rætist!
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is