Við fengum glóðvolgar fréttir frá Þorleifi tíðindamanni okkar við Djúp. Hann gerði sér ferð og kannaði Hvannadalsá og varð var við lax á nokkrum stöðum. Hann sá 6-8 laxa í Djúpafossi og nokkra neðarlega í rennunni í Imbufossi. Þegar hann ætlaði að renna á þá skaust einn undan fryssinu á fluguna, þeir geta verið lúnknir laxarnir í Hvannadalsá að fela sig í frysspollunum. Mjög gott vatn er í ánni.
Við heyrðum frá mönnnum sem voru að ljúka veiði í Svartá og var eftirtekjan þrír laxar. Hollið á undan þeim voru með sex og þar af veiddust nokkrir í uppánni, Kringlueyrarhyl og Krókeyrarhyl. Svartá er þekkt fyrir mesta veiði síðasumars þannig að við bíðum róleg.
Blanda sjálf hefur oft skilað meiri veiði en hún á nóg eftir, nú er bara að vona að kraftmeiri göngur láti sjá sig á næstunni.
Það hefur tosast eitthvað úr Tungufljóti, seint hægt að tala um mok en margir hafa náð einum og þá einna helst við fossinn. Fljótið endaði í yfir 300 löxum í fyrra en byrjar þó betur í ár þar sem mest veiddist í því síðsumars 2016.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð