Ágætis byrjun í laxinum

Nú eru liðnir átta dagar síðan opnað var fyrir laxveiði í Blöndu. Opnunarhollið gekk ágætlega eins og við höfum sagt frá áður en 23 laxar komu á land. Heildarveiðin þessa átta fyrstu daga eru 52 laxar sem gerir 1,6 lax á stöng á dag sem er mjög fín veiði. Allt eru þetta nefnilega boltafiskar og flestir yfir 80cm. Stærstur var lax upp á 97cm sem var viktaður 10kg í háfnum og er því fyrsti tuttugupundarinn á Íslandi þetta árið.

Við höfum heyrt góðar fréttir víðar, þannig var opnunarhollið í Haffjarðará með yfir 20 laxa og þar af einn 93cm. Nú í morgun voru svo tíðindi af Norðurá þegar stór ganga var greinilega að koma inn og menn reistu yfir 20 laxa á tveimur tímum í Stekknum.

Í Ytri Rangá hafa sést laxar í Djúpósi og lax hefur sést í Elliðaánum og Leirvogsá fyrir nokkru síðan. Báðar þessar ár og margar af okkar ám opna þann 20.06, Leirvogsá skömmu síðar og verður spennandi að sjá hvað gerist. 

Við eigum mörg flott veiðileyfi eftir sem má finna í vefsölunni okkar hér: Vefsala

Veiðikveðja 

Jóhann Davíð –  jds@lax-a.is