Þær systur við djúp, Langadalsá og Hvannadalsá hafa oft verið kraftmeiri en í sumar. Þær hafa gefið ágæt skot, en við vildum gjarnan sjá hærri tölur.
Í Langadalsá hrjáði vatnsleysi veiðimenn fram eftir ágústmánuði. Nú síðustu daga rigndi og þá var ekki að sökum að spyrja, hann fór að taka og sýna sig út um alla á. Síðasta holl tók 16 laxa og þeir misstu töluvert. Mesta fjörið var síðasta daginn þegar farið var að vaxa í ánni. Að sögn er fiskur um alla á og tóku þeir meðal annars 81 cm fisk í Túnfljóti og nokkrir fleiri 80 cm plús voru í aflanum. Langadalsá er samkvæmt síðustu tölum komin í 127 laxa.
Hollið sem lauk veiði þann 22. ágúst í Hvannadalsá reytti upp 10 laxa og heildartalan stendur í 67 veiddum laxi. Veiðin var nokkuð dreifð en fiskur var meðal annars að taka í Imbulfljóti, Pallklettum, Djúpafossi og Stekkjarfossi sem er efsti staður árinnar. Hvannadalsá heldur vel vatni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá Imbufossi.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is