Af Svartá og Blöndu

Blanda hefur verið ágæt í sumar, ekkert í líkingu við síðasta sumar en þó stefnir þetta á í að vera yfir meðalveiði í ánni. Og laxinn í ánni í sumar hefur verið stór, vel haldnir hnullar sem hafa haldið veiðimönnum við efnið. Smálaxagöngur hafa verið daprar í ár en svona er víst veiðin. Vikuna 27.07-03.08 gaf áin 177 lax og var þá komin í samtals 1858 laxa. Það er ágætur árangur og varla hægt að tala um lægð. Til að setja þetta í samhengi þá gaf öll áin 504 laxa árið 2003 og 832 árið 2012.

Svartá hefur líka verið allt í lagi, ekkert heldur í líkingu við síðasta ár en hún líkt og Blanda glímir við smálaxaskort. Vikan 27.07 – 03.08 gaf 36 laxa og er þá áin komin í 181 lax. Svartá var lökust árið 2006 með 84 laxa og 2012 með 148 laxa þannig að þetta er eniginn heimsendir.

Við heyrðum af holli sem lauk veiðum í Svartá á föstudaginn með 10 laxa eftir tvo daga. Mest allt var þetta rígvænn fiskur og þar af einn 97 cm úr Hólslæk.

Síðuritari er strax farinn að hlakka til 2017, mér segir svo grunur að það verði svakalegt.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is

P.S

Vildum minna veiðimenn á svæði tvö á að skilja ekki eftir rusl í geymsluskúrnum við hliðina á húsinu.