Eins og menn vita hafa veiðitölur í Soginu ekki beinlínis verið til að hrópa húrra fyrir síðustu ár. Það hefur verið afskaplega sorglegt að sjá hvað þessi fornfræga stórlaxaá hefur verið í mikilli lægð.
Fyrir þessari niðursveiflu geta verið ýmsar ástæður en greinarhöfund og fleiri grunar einna helst stórfelldar netalagnir á gönguleið laxfiska í Sogið. Þessar netalagnir höggva stórt skarð í stofninn ár hvert og eru að mínu mati alger tímaskekkja.
Það er erfitt að benda á að veiðimenn drepi einn og einn lax þegar netalagnir neðar í kerfinu drepa þá í þúsundatali. En eitt er að benda á og annað að ganga á undan með góðu fordæmi.
Við hjá Lax-á og SVFR höfum því samræmt stefnu okkar og ákveðið að banna maðkveiðar á okkar svæðum í Soginu frá og með árinu 2017. Auk þessa ber að sleppa öllum stórlaxi en hóflegur kvóti er á smálaxi.
Eitthvað verður að gera og þetta er okkar viðleitni til að hjálpa laxinum í Soginu.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is