Veiðin í Blöndu gengur eins og í lygasögu þessa daganna. Öll svæði eru að skila góðri veiði og lítur út fyrir að svo verði óbreytt á næstunni. Síðast straumur var afar sterkur og skilaði inn miklu magni af eins árs laxi.
Það kemur í sjálfum sér engum á óvart að allar fjórar stangirnar á svæði eitt eru að taka tólf laxa kvóttann á dag eins og veiðimenn hafa verið að gera undanfarnar vikur.
Svæði tvö gengur vel og er veiði víða á svæðinu þó Svarthylur stendur uppúr eins og svo oft áður. Heyrðum af veiðimönnum sem voru við veiðar á föstudag í einn dag en þeir enduðu með 10 laxa.
Þriðja svæðið er að gefa svipaða dagsveiði og svæðið fyrir neðan en helgarhollið kláraði með 24 laxa. Þar er veiðin dreifð á Bæjarhóla, Tjarnarnes, Lynghólma og Skurð en menn sem hafa reynt við gljúfrin ofan brú hafa lent í nokkrum ævintýrum enda ekki allir sem stunda þessa veiðistaði. Var einn veiðimaður um helgina sem tók fimm laxa á klukkutíma úr einum og sama hylnum.
Að lokum er efsta og fjórða svæði Blöndu, stundum kallað Refsá. Tveggja daga hollin hafa verið að gefa frá 15-20 laxa á þrjár stangir en allt veiðist þetta á smáflugur/túpur eða hitch.
Blanda er því í frábærum málum og skilar af sér kátum veiðimönnum. Það lítur út fyrir að þetta eigi eftir að halda áfram en vatnshæð Blöndulóns er afar hægstæð veiðimönnum og vantar en fjóra metra á yfirfallið. Þetta getur þó breyst á svipstundu en þó má leyfa sér að vona að það nái fram í september.