Menn voru nokkuð kátir á bakkanum við DEE í opnuninni þrátt fyrir snjóföl á bakkanum. Aðstæður á opnunardaginn voru prýðilegar að sögn veiðimanna og komu þá á land 11 nýgengnir laxar eða svokallaðir „Springers“. Auk þessa veiddust hátt í hundrað svokallaðir „Kelts“ eða það sem við myndum hreinlega kalla niðurgöngulaxa.
Annan dag veiðanna brast á með slydduhraglanda og voru aðstæður til veiða svipaðar og við þekkjum stundum úr vorveiðinni hér heima. Líklega hefur verið nokkuð um loppna putta eftir þetta slark (mynd fengin af FishDee með leyfi).
Á okkar svæðum veiddust engir nýgengnir laxar fyrsta daginn en tugur niðurgöngufiska. Strax á öðrum degi veiðanna fengum við þær góðu fréttir að fyrstu laxarnir hefðu veiðst á okkar svæði „Lower Crathes“ en þar komu á land tveir vel haldnir silfurgljáandi nýrenningar. Það er mun betri byrjun en í fyrra þegar fyrstu fiskarnir veiddust ekki fyrr en 18.febrúar.
Við erum sátt við þessa byrjun og það fyllir okkur bjartsýni fyrir sumarið að sjá hvað nýgengnu laxarnir koma vel haldnir úr sjó.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is