Fréttir í vikulok

Blanda2006 034

Blanda er aldeilis að standa sig og svæði eitt hefur nú skilað vel yfir 600 löxum og lax er líka farinn að skila sér vel inn í dal. Í gegnum teljarann hafa farið 550 laxar en auk þess fer alltaf töluverður fjöldi fram hjá og því má ætla að umtalsvert fleiri fiskar séu gengnir fram dalinn. Við heyrðum að 30 laxar hafa veiðst í Blöndu IV og þar af einn í Fálkahyl sem er með efstu merktu stöðum. Svartá er hægt og bítandi að malla í gang, hún er enn svolítið vatnsmikil en undir flaumnum leynast stórlaxar.

Stóra Laxá heldur fínum dampi og við heyrðum af einum 105 cm dreka sem veiddist á svæði 1-2 í vikunni. Við fáum vonandi myndir af skrímslinu fljótlega.

Fyrir vestan gerðu veiðimenn ágætan túr í Langadalsá og snöruðu á land 16 löxum á þremur dögum, nær allt stórlax, 70-93 cm, einungis tveir smálaxar innan um.

Eystri Rangá skilaði 20 löxum í gær (10.07) og stendur í 180 veiddum löxum, nú ætti vonandi að fara að skella í fjör þar næstu daga.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is