Í Tungufljóti reytist upp fiskur og við vitum af allavega 9 löxum á land. Töluvert líf hefur sést við Faxa og ítalskir veiðimenn sem núna standa vaktina eru hæstánægðir en þeir lönduðu vænum fiski í morgun.
Eystri Rangá er á góðri siglingu og síðustu fréttir herma að 293 laxar séu komnir á land, í gær veiddust 35 laxar. Við rákumst á athyglisverða tölfræði á Facebook síðu Eystri en þar segir að vikuna 3-10 júlíi árið 2013 hafi veiðst 90 laxar en sömu viku í ár 138 laxar!
Við heyrðum í alsælum veiðimönnum sem voru að koma úr Blöndu sv 4 og veiddu 8 laxa. Þar með er Blanda fjögur komin yfir 40 laxa og fiskur víða. Annars er Blanda öll í góðum málum. Á svæði eitt eru menn enn brosandi kátir í bullandi veiði, á svæðum tvö og þrjú hefur verið ágæt veiði enda gengu á þriðja hundrað laxar stigann bara nú um helgina.
Í Svartá kom góð ganga síðustu helgi og veiddust þá 11 laxar á þremur vöktum. Nokkuð er af stórum laxi á svæðinu og heyrðum við af einum 92cm úr Grundarstreng í morgun. Talan í Svartá þá komin í 24 laxa og miðað við veiði síðustu daga á talan eftir hækka.
Ánægður veiðimaður hafði svo samband og sagði okkur að Hallá væri komin yfir 20 laxa en Hallá hefur yfirleitt verið fremur sein til og á því töluvert inni.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is