Stóra Laxá er aðeins farin að minnka í vatnsmagni og við heyrðum af laxi á land á svæði 1&2 og þrjú, nú fer þetta vonandi að detta í gang.
Holl sem er nú við veiðar í Ásgarði er komið með fjóra laxa og eitthvað af fiski er að ganga í Sogið, lúsugur lax veiddist nýlega á Tannastöðum.
Veiðimaður sem var við veiðar í Syðri Brú og Tungufljóti silungasvæði setti í glæsilegan lax og boltaurriða.
Fyrstu laxarnir eru komnir á land í Langadalsá en þar voru Danir við veiðar og fengu þeir tvo væna fiska, hollið sem nú er að leik var komið með tvo og búið að missa þrjá. Við bíðum enn eftir fyrsta laxinum úr Hvanndalsá en hún er enn foráttuvatnsmikil, en það hlýtur að fara að lagast.
Blanda er blá af laxi eins og við höfum flutt ykkur fréttir af áður og þar af margir í yfirstærð, nýlega missti veiðimaður sex risalaxa í beit á Breiðunni. Hann var vel búinn með 20 punda girni en þeir slitu það eins og tvinna þegar þeir skelltu sér niður flúðirnar.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is