Kæru veiðimenn,
Eins og flestum er kunnugt stendur nú til að hefja laxeldi í stórum stíl við vestan- og austanvert landið. Norðmenn sem hafa verið brautryðjendur í laxeldi og í framhaldi nær útrýmingu náttúrulegra laxastofna hafa séð sér leik á borði og vilja flytja fagnaðarerindið til Íslands.
Á Íslandi eru aðstæður til eldis á laxi mun erfiðari og óhagstæðari en í Noregi og í Færeyjum og því má spyrja sig af hverju Norðmenn vilja hasla sér völl hér? Svarið við því er einfalt. Í Noregi er erfitt að fá leyfi fyrir auknu laxeldi og slík leyfi eru seld dýrum dómum fáist þau á annað borð. Hér á Íslandi eru þau ókeypis og að auki virðist regluverkið hér álíka götótt og laxeldiskví í vestfirskum stormi.
Við ætlum semsagt að leggja íslenska laxastofninn í stórhættu og arðurinn af ævintýrinu mun að stærstum hluta renna í vasa Norðmanna. Það eina sem þetta gefur okkur innbyggjum í aðra hönd eru fáein störf við slátrun og eldi í heimabyggð.
En þá má spyrja sig á móti hvaða störf erum við að leggja í hættu með þessu? Sala og þjónusta við veiðimenn skilar miljörðum ár hvert til þjóðarbúsins. Margir heimamenn hafa af því atvinnu að þjónusta veiðimenn og bændur fá arð af veiðiréttindum sem oft getur jafnvel gert gæfumuninn í því að hægt sé að halda áfram búskap.
Ég hvet veiðimenn að láta í sér heyra til varnar íslenska laxinum, samtaka getum við átt þátt í að afstýra óafturkræfu umhverfisslysi. Við getum byrjað á því að kaupa ekki eldislax og virkjað aðra neytendur til hins sama.
Látum ekki fara fyrir ánum okkar eins og fór t.d á vesturströnd Skotlands. Þar tók einungis fáein ár frá því stöðvar voru settar upp þar til árnar voru tæmdar af laxi. Í einu svæði í ánni Doon veiddust til að mynda yfir 1000 laxar þegar best lét, árið 2015 eftir nokkura ára laxeldi á svæðinu voru þeir 27. Ánni hefur verið lokað, ekki er forsenda fyrir frekari veiðum. Látum þetta ekki henda íslensku árnar!
Lifi íslenski laxinn!
Jóhann Davíð – jds@lax-a.is