Blanda er áfram í bullgír og blússandi hamingja á bænum. Spánverjar sem voru við veiðar fyrir helgi lönduðu 76 löxum á fjórar stangir á einum og hálfum degi eða nákvæmlega 6,33 laxa á stöng á vakt! Svæði eitt í Blöndu er í þessum skrifuðu orðum komið í 342 laxa.
Efri svæði eru líka farin að gefa nokkuð vel. Á svæði 4 eru nú komnir 14 laxar á land, Svæði 3 hefur gefið 19 laxa og Svæði 2 15 laxa. Meðfylgjandi er mynd af Antoni Kristinssyni með glæsilegan fisk sem hann tók á Engjabreiðu á svæði 2. Laxinn féll fyrir Sunray á flotlínu!
Af öðrum svæðum er það að frétta að nú loks hefur komið lax á land í Ásgarði og þrír hafa komið á land í Bíldsfelli og einn í Syðri Brú.
Hallá hefur gefið þrjá laxa hingað til og virðist seinni til en síðustu ár.
Veiðikveðja – Jóhann Davíð – jds@lax-a.is