Veiðin fyrstu vikuna í DEE

Enn færum við ykkur fréttir af Dee, enda gaman að geta sagt fréttir af laxveiði sem er komin í gang. Sérlega gaman finnst okkur að skoða myndir af vel höldnum nýgengnum laxinum og ekki er laust við að það ýti undir skjálfta í kasthendinni.

Fyrstu vikuna í Dee komu á land 42 laxar en aðstæður voru mjög erfiðar, lágt hitastig og gekk á með snjókomu auk þes sem ísrek var í ánni. Þessar lýsingar minna mann einna helst á margar frásagnir af opnun sjóbirtingsánna hér á Fróni!

Veiðin var nokkuð dreifð um ána en flestir laxar komu á land í Invery/Tilquhillie eða 13. Þetta svæði er neðarlega í ánni og virðist sem fiskurinn hafi hikað við að ganga lengra vegna þess að vatnshiti var lágur og vatnsmagn var lítið. Engin af fiskunum var lúsugur sem virðist styðja þá kenningu að fiskarnir hafi stöðvast þar og dvalið.

Skotarnir bíða nú þess að aðstæður batni til að aukinn kraftur færist í göngurnar og fiskurinn dreifi sér betur.Stærstu fiskarnir hingað til eru: 20 punda lax af svæðinu okkar „Lower Crathes“ og svo veiddust 17 og 18 punda laxar í „Crathes Castle“. Á meðfylgjandi myndum má sjá þessa glæsilegu fiska (myndir fengnar af FishDee með leyfi).

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is